Karellen


Velkomin í leikskólann Undraland.

Um leið og við viljum bjóða barnið ykkar og ykkur velkomin í leikskólann, viljum við gefa ykkur upplýsingar um ýmis atriði sem tengd eru starfsemi leikskólans og nauðsynlegt er fyrir foreldra að vita.

Leikskólinn Undraland hefur starfað frá árinu 1982 en flutti í nýtt húsnæði að Þelamörk 62, í október 2017. Í leikskólanum eru 6 aldursskiptar deildir, 3 í hvorri álmu. Í austurálmu eru yngri deildir; Laki, Snæfell og Eldgjá og þar dvelja börn frá 12 mánaða -3 ára. Í vesturálmu eru eldri deildir; Krafla, Askja og Hengill með 3-6 ára börnum.

Dvalartími

Leikskólinn er opinn frá kl. 07:45 – 17:00. Vistunartími sem er fyrir kl 8 og eftir kl 16 telst utan dagtaxta og er því dýrari. Foreldrar gera samning við leikskólann um vistunartíma og er starfsfólki raðað í húsið eftir fjölda barna á hverjum tíma. Því er mikilvægt að foreldrar virði umsaminn dvalartíma barnsins og vinnutíma starfsmanna.

Að koma og fara

Nauðsynlegt er að foreldrar fylgi barninu inn í leikskólann og láti starfsfólk vita þegar barnið kemur og fer. Munið eftir að loka hliðinu þannig að börnin komist ekki út af skólasvæðinu og ekki hafa bíla í gangi fyrir utan leikskólann.

Foreldrar eru beðnir um að láta vita ef einhver ókunnugur eða annar en vanalega sækir eða kemur með barnið í leikskólann, en viðkomandi þarf skv. lögum að vera a.m.k. 12 ára.

Ávallt skal látið vita um komu barns í leikskóla og brottför þess..

Starfsfólk leikskólans

Leikskólastjóri er yfirmaður leikskólans og ber faglega og rekstarlega ábyrgð á starfseminni.

Aðstoðarleikskólastjóri / leikskólasérkennarier staðgengill leikskólstjóra að honum fjarverandi og honum til ráðuneytis um tilhögun innan leikskólans.

Yfirþroskaþjálfi/yfirmaður sérkennslu ber ábyrgð á og stjórnar skipulagningu og framkvæmd sérkennslu ásamt leikskólastjóra. Er faglegur umsjónarmaður sérkennslu.

Deildarstjórar bera ábyrgð á uppeldisstarfinu og barnahópnum á sinni deild og bera einnig ábyrgð á foreldrasamstarfi á deildinni.

Leikskólakennarar og annað starfsfólk vinnur í samstarfi við deildarstjóra að uppeldistarfinu á deildinni.

Matreiðslumaður,ber ábyrgð á eldhúsi og skipulagningu mötuneytis.

Starfsfólk í eldhúsi, starfar í samstarfi við matreiðslumann við matseld og þrif í elhúsi

Aðlögun

Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið og foreldra þess. Allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að aðlögun í upphafi. Á meðan á aðlögun stendur er mikilvægt að barnið og foreldrar fái að skoða sig um og kynnast hinu nýja umhverfi, starfinu sem þar fer fram og starfsfólki leikskólans.

Við notum mismunandi aðferðir við aðlögun barnanna og fer hún eftir aldri:

  • Þátttökuaðlögun yngstu barnanna felur í sér 4 daga viðveru foreldra og fulla þátttöku þeirra í öllu starfi deildarinnar með sínum börnum. Lögð eráhersla á að að foreldrum gefist tækifæri til að kynnast, starfi leikskólans, starfsfólki og öðrum foreldrum deildarinnar. Með þátttökuaðlögun kynnast barnið og foreldri/-ar leikskólanum saman og öryggi foreldranna smitast til barnsins.
  • Aðlögun eldri barna er skipulögð af deildastjóra í samvinnu við foreldra og er aðlögunartíminn miðaður við hvert barn. Barnið kemur í stuttan tíma fyrsta daginn og er viðveran lengd eftir þörf, oftast er um 3-5 daga að ræða.

Leikskólastarfið

Einkunnarorð leikskólans Undralands eru:

Öryggi - leikur -umhyggja

Í Undralandi leggjum við megin áherslu á:

  • Nám í gegnum leik
  • Félagsfærni einstaklingsins.
  • Finna leiðir til að skapa umhverfi og aðstæður sem virkja sköpunargleði barnanna.
  • Gefa barninu tækifæri til að tjá og túlka hug sinn og þekkingu á skapandi hátt.
  • Að barnið öðlist sterka sjálfsmynd.
  • Að barninu líði vel í skólaumhverfinu.

Grunnþættir menntunar

Leikskólastarfið tekur mið af þeim sex grunnþáttum menntunar sem Aðalnámsskrá leikskóla byggir á. Þessir þættir eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir eru sameiginleg leiðarljós í menntun, uppeldi og umönnun í leikskólum og fléttast inn í allt leikskólastarfið.

Leikur = nám

Frjáls og sjálfsprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barna. Í gegnum leikinn öðlast börnin fjölþætta reynslu, þau skynja nýjar tilfinningar, nýjar upplifanir, efla samskipti sín á milli og öðlast færni til að ráða fram úr sínum ágreiningsefnum. Leikurinn er því ávallt kjarni uppeldisstarfsins og grunnþættir menntunar (sjá hér að ofan) fléttast við hann.

Undraland er LAL leikskóli

LAL, Leikur að læra, er kennsluaðferð sem byggir á námi í gegnum leik og hreyfingu. Við fléttum alla námsþætti inn í leik og hreyfingu í sal, LAL stundir á deildum og samverustundir. Höfundur aðferðarinnar er Kristín Einarsdóttir íþróttafræðingur er hún og hennar teymi okkur til leiðsagnar og samstarfs. www.leikuradlaera.is

Samstarfsaðilar leikskólans

Skóla og velferðarþjónusta Árnesþings

Skóla-og velferðarþjónusta Árnesþings er leikskólastjóra og starfsfólki leikskólans faglegur ráðgjafi um starfsemi leikskólans og málefni sérkennslubarna. Við Skólaþjónustuna starfa sálfræðingar, félagsráðgjafar og aðrir sérfræðingar sem koma að greiningum og ráðgjöf vegna einstakra barna. www.arnesthing.is

Sé þörf á aðkomu sérfræðinga utan þeirra sem í leikskólanum starfa, s.s. sálfræðinga, kennslu- eða fjölskylduráðgjafa, fyllir starfsfólk leikskólans og foreldrar út tilvísunarbeiðni sem leikskólinn sendir Skóla- og velferðarþjónustunni.

Talmeinafræðingur

-er starfandi við skóla bæjarins. Hann kemur reglulega í leikskólann, metur, greinir og stýrir talþjálfun einstakra barna.

Félagsmálafulltrúi

Félagsmálafulltrúi Hveragerðisbæjar hefur yfirumsjón með barnaverndarmálum bæjarins. Samkvæmt lögum ber hverjum þeim sem starfar með börnum að tilkynna grun um misfellur í uppeldi og/eða aðbúnaði sem áhrif hafa á velferð barna og gengur sú tilkynningaskylda framar ákvæðum laga um þagnarskyldu.

Heilsugæsla

Heilsugæslan í Hveragerði er okkar leiðbeinandi ef upp koma bráðasmit eða veikindi auk þess sem gott samstarf er við hjúkrunarfræðing í ungbarnavernd. Hjúkrunarfræðingur kemur niðurstöðum þroskaprófa Heilsugæslunnar til leikskólans. Leikskóli óskar eftir leyfi foreldra til að fá upplýsingar frá ungbarnaverndinni ef grunur kviknar um að barn þurfi snemmtæka íhlutun í leikskólanum

Fræðslunefnd

Fræðslunefnd, í umboði bæjarstjórnar Hveragerðis, fer með stjórn leikskólamála bæjarins eftir því sem kveðið er á um í lögum. Í nefndinni sitja fulltrúar kosnir af bæjarstjórn auk fulltrúa úr Ölfusi. Fundi nefndarinnar sitja auk kjörinna nefndarmanna fulltrúi foreldrafélag GÍH, kennara og skólastjórnenda sem hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðarétt.

Grunnskólinn í Hveragerði

Leikskólar bæjarins ásamt Grunnskólanum vinna saman að undirbúningi elsta árgangs fyrir komandi grunnskólagöngu. Kennarar allra skólanna hittast og skipuleggja heimsóknir vetrarins, fagleg vinna er ígrunduð á báðum skólastigum og samstarfið metið.

Leikskólinn sér um að mikilvæg gögn er varða börnin flytjist yfir til Grunnskólans.

Foreldar

Foreldrar eru svo auðvitað fyrst og síðast mikilvægustu samstarfsaðilar leikskólans.

Foreldrasamstarf

Mikilvægt er að góð samvinna takist við upphaf skólagöngu milli foreldra barnsins og kennara leikskólans þar sem gagnkvæm samvinna og trúnaður þeirra á milli er forsenda þess að barninu líði vel í leikskólanum. Daglegar upplýsingar um barnið heima eða í leikskólanum eru nauðsynlegar því oft veldur lítið atvik, hvort sem er í leikskólanum eða heima, því að hegðun barnsins er ekki söm og áður. Foreldrar geta hvenær sem er hringt í leikskólann til þess að spyrjast fyrir um líðan barnsins.

Foreldrasamtöl

Skipulögð foreldrasamtöl eru einu sinni á ári, á vorönn. Tilgangur foreldrasamtala er að veita gagnkvæmar upplýsingar um þroska og líðan barnsins. Þess fyrir utan hvetjum við foreldra til að hafa samband við skólastjóra eða deildastjóra ef þurfa þykir, á staðnum, í síma 4834234 eða með tölvupósti á viðkomandi deildarstjóra (sjá netföng á heimasíðu leikskólans).

Foreldrafélag

Sameiginlegt foreldrafélag er starfandi við leikskóla Hveragerðisbæjar og allir foreldrar/forráðamenn verða sjálfkrafa félagar um leið og barnið byrjar í leikskólanum. Félagsgjöld eru innheimt með leikskólagjöldum, 250 kr á mánuði fyrir hvert barn/systkini.

Markmið félagsins er að efla samvinnu foreldra við starfsfólk leikskólanna og foreldra innbyrðis um að tryggja hagsmuni barnanna. Foreldrafélagið býður meðal annars upp á leiksýningar, sumarhátíð, tekur þátt í kostnaði vegna útskriftaferðar elstu barnanna og stendur fyrir því að fá ljósmydara einu sinni á ári til að taka hóp- og einstaklingsmyndir af börnunum.

Aðalfundur foreldrafélagsins er haldinn að hausti. Þar eru málefni foreldrafélagsins rædd og stjórn þess endurnýjuð.

Foreldraráð.

Foreldraráð starfar við leikskólann Undraland og vinnur að hagsmunum barnanna og foreldra þeirra. Foreldraráð fjallar um og gefur umsögn til leikskólans og leikskólanefndar um skólanámskrá og aðrar þær áætlanir sem varða starfsemi leikskólans og skulu stjórnendur leikskólans bera allar meiriháttar ákvarðanir um skólastarfið undir ráðið. Foreldraráð fylgist enn fremur með því að áætlanir séu kynntar fyrir foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar.

Almennar / hagnýtar upplýsingar

Karellen

Leikskólin notast við leikskólakerfið Karellen sem heldur utan um ýmsar uppslýsingar varðandi börnin, s.s. mætingar, svefn og matmálstíma, myndir, vistunartíma, tengiliði, matseðla o.fl.. Kerfið býður upp á foreldraaðgang þar sem foreldrar geta skráð sig inn bæði í gegnum netvafra og í smáforrit sem er hægt að sækja í App store og Google play.

Kerfið hefur einnig samskiptasvæði þar sem leikskóli og foreldrar geta sent skilaboð sín á milli. staðsettar í fataklefa og eru þar meðal annars upplýsingar um matseðil og önnur mikilvæg skilaboð til foreldra.

Facebook

Leikskólinn er með lokaðan hóp á Fb sem er eingöngu ætlaður foreldrum. Þar birtum við ýmsar tilkynningar, myndir úr leikskólastarfinu og fréttir til foreldra. Foreldrar þurfa að skrifa undir hjá deildarstjóra gefi þeir leyfi fyrir því að myndir af barni þeirra verði birtar í hópnum.

Heimasíða

Leikskólinn er með heimasíðu og eru þar allar helstu upplýsingar um leikskólann. Fréttabréf og skóladagatal eru sett inn á heimasíðu leikskólans. Heimsíða Undralands er: undraland.hveragerdi.is

Fréttabréf

Fréttabréf eru gefin út reglulega. Í þeim eru ýmsar upplýsingar til foreldra, s.s. auglýsingar, tilkynningar og upplýsingar um það sem er á döfinni.

Klæðnaður

Útbúnaður barnsins þarf alltaf að vera í samræmi við veðurfar. Nauðsynlegt er að barnið hafi meðferðis aukaföt og þann hlífðarfatnað til útiveru sem það hugsanlega þarf að nota hverju sinni. Hólf barna þarf að tæma á föstudögum og taka allan útifatnað heim.

Nauðsynlegt er að merkja öll föt og skófatnaðbarnanna. Hægt er að fá mjög góða merkimiða t.d. hjá merkimidar.is , rogn.is eða öðrum aðilum.

Veikindi – fæðuóþol/-ofnæmi

Ef börnin eru veik eiga þau ekki að vera í leikskólanum. Veikist barnið skal það dvelja heima þar til það er tilbúið til að taka þátt í öllu starfi leikskólans jafnt úti sem inni. Í undantekningatilvikum getur barnið fengið að vera inni 1-2 daga eftir veikindi. Með undantekningatilvikum er átt við löng eða síendurtekin veikindi. Ekki er hægt að hafa börnin inni í leikskólanum til að fyrirbyggja veikindi en við höfum boðið þeim að fara síðust út og koma fyrst inn svo útiveran verði stutt. Athugið að ef innibarn á tíma til 16:15 og verið er að skila úti gæti barnið þurft að fara út síðustu mínútur dagsins vegna fjölda starfsmanna eftir kl 16.

Gott er að foreldrar tilkynni leikskólanum um veikindi barna sinna.

Ef barnið greinist með fæðuóþol og þarf sérfæði þarf að koma með læknisvottorð því til staðfestingar. Ekki eru gefin lyf í leikskólanum nema í algjörum undantekningatilvikum og þá með leiðbeiningum frá lækni um að lyfjagjöf sé nauðsynleg þann tíma sem barn dvelur í leikskólanum.

Leikskólagjöld

Leikskólagjöldin eru greidd fyrirfram, mánuð í senn og sendast í heimabanka. Ef ekki er staðið í skilum á gjöldum í þrjá mánuði missir forráðamaður leikskólaplássið.

Nauðsynlegt er að tilkynna leikskólastjóra um breytingar á högum sem áhrif hafa á leikskólagjöld s.s. breytta hjúskaparstöðu og námsvist foreldra.

Breytingar vistunartíma- uppsögn leikskólaplássa

Óski foreldri eftir breytingum á vistunartíma barnanna eða að segja upp leikskólaplássi þarf að fylla út eyðublað sem fæst hjá deildarstjóra.

Uppsagnarfrestur leikskólaplássa er mánuður og það á einnig við um breytingar á vistunartíma. Miða skal uppsögn/breytingar við 1. eða 15. hvers mánaðar.

Hefðir og hátíðir

Í leikskólanum er lögð rækt við ýmsar hefðir og hátíðir. Tikynningar eru settar upp á upplýsingartöflu í fataklefa, á Fb síðu Undralands og sendar heim í tölvupósti. Við höldum jólaskemmtun, þorrablót, öskudagsskemmtun, bónda- og konudagskaffi o.fl.

Afmæli barnanna

Þegar barnið á afmæli velur það sér borðbúnað í tilefni dagsins, s.s. diskamottu og glas, barnið býr til kórónu með hjálp starfsfólks og afmælissöngurinn er sunginn. Íslenski fáninn er settur inn á deild barninu til heiðurs. Við höfum lagt niður veitingar á afmælum en barninu er velkomið að taka með sér bók í leikskólann.

Skipulagsdagar og starfsmannafundir

Starfsfólk leikskólans fjóra daga á ári til að skipuleggja og endurmeta starf leikskólans, að auki er einn ráðstefnudagur. Þessa fimm daga er leikskólinn lokaður.

Einnig eru leikskólarnir með fjóra starfsmannafundi á ári sem haldnir eru að morgni. Þá daga opnar leikskólinn ekki fyrr en kl 10. Þessir fundir eru notaðir til fræðslu, samráðs og til að undirbúa skólastarfið.

Bæði starfsmannafundir og starfsdagar koma fram á skóladagatali leikskólans síðsumars og að auki eru þeir auglýstir með 2-3vikna fyrirvara.

Öllu starfsfólk leikskólans er skylt að gæta þagmælsku um þau atriði sem það fær vitneskju um í starfi sínu. Öll vitneskja um börn, foreldra og þeirra einkamál eru háð þagnarskyldunni. Þagnaskyldan helst þó látið sé af starfi.

© 2016 - 2024 Karellen