Karellen

Foreldraráð

Í foreldraráði Undralands eru fyrir hönd foreldra Birna Almarsdóttir, Guðrún Magnea Guðnadóttir og Irpa Fönn Hlynsdóttir.


Tilgangur með stofnun foreldraráða er að auka möguleika foreldra til að hafa áhrif og að taka þátt í starfsemi leikskóla. Hlutverk foreldraráðs er að fjalla um og gefa umsögn til leikskólans og leikskólanefndar um skólanámskrá og aðrar þær áætlanir sem varða starfsemi leikskóla, fylgjast með að áætlanir séu kynntar foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar. Þá er einnig gert ráð fyrir að við ákvörðun um allar meiriháttar breytingar á skólastarfi sé haft samráð við foreldraráð. Foreldraráðin taka einnig við ábendingum um það sem betur má fara og koma þeim formlega áleiðis


Starfsreglur foreldraráðs leikskólans Undralands

Samþykktar á fundi foreldraráðs 2012

1. gr.

Hlutverk foreldraráðs.

Foreldraráð starfar með hagsmuni barnanna og foreldra þeirra að leiðarljósi og fylgist með því að hlúð sé að velferð og réttindum barnanna í leikskólastarfinu. Ráðið fjallar um og veitir umsögn til leikskólans og fræðslunefnd Hveragerðisbæjar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Það fylgist enn fremur með því að skólanámskrá og aðrar áætlanir séu kynntar fyrir foreldrum og hvernig þær eru framkvæmdar. Bera skal allar meiri háttar ákvarðanir um skólastarfið undir foreldraráð sem veitir umsögn um þær

Foreldraráðið fjallar um ábendingar frá foreldrum og öðrum forsjáraðilum um starfsemi leikskólans og aðbúnað barnanna og getur komið þeim á framfæri við leikskólastjóra eða bæjaryfirvöld.

2. gr.

Starfstímabil og kosning.

Starfstímabil foreldraráðs er eitt ár og fer kosning í það fram síðari hluta septembermánaðar á hverju ári. Fjórir fulltrúar eru kosnir í ráðið, eitt foreldri af hverri deild. Leitast skal við að tveir fulltrúar, sem setið hafa í foreldraráði, bjóði sig fram að nýju.

Kosning í ráðið fer fram á aðalfundi foreldrafélagsins sem haldinn er í september ár hvert.

Óskað er eftir framboðum á fundinum og eiga allir foreldrar/forráðamenn atkvæðisrétt ef til atkvæðagreiðslu kemur.

3. gr.

Starfshættir foreldraráðs.

Á fyrsta fundi foreldraráðs velja fulltrúarnir sér formann og skipta að öðru leyti með sér verkum. Formaður boðar til funda í foreldraráðinu. Þeir skulu að jafnaði haldnir tvisvar á önn og oftar ef þurfa þykir.

Halda skal fundargerðir um það sem fram fer á fundum foreldraráðsins. Fundargerðirnar eru birtar á vef leikskólans ásamt umsögnum og ályktunum ráðsins.

Foreldraráð getur staðið fyrir almennum fundum meðal foreldra barnanna og annarra forsjáraðila um málefni sem varða starfið á leikskólanum. Foreldraráðið starfar í náinni samvinnu við leikskólastjóra og foreldrafélag skólans. Fulltrúi ráðsins tekur þátt í samstarfi foreldrafélaga meðal annars á vettvangi samtakanna Heimili og skóli.

Fulltrúar í foreldraráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeim er trúað fyrir út af setu þeirra í foreldraráði og varða fjölskylduaðstæður einstakra barna, hegðun þeirra og heilsufar eða önnur viðkvæm atriði sem eðlilegt er að fari leynt.

Á fundi foreldraráðs við lok starfstímabilsins gerir formaður þess grein fyrir starfi ráðsins áður en nýtt foreldraráð er kjörið.

4. gr.

Birting starfsreglna og breytingar á þeim.

Foreldraráðið lætur birta starfsreglurnar á heimasíðu leikskólans.

Að lokinni kosningu nýs foreldraráðs í september ár hvert skal taka afstöðu til þess hvort endurskoða þurfi starfsreglurnar.


Handbók foreldraráða leikskóla

© 2016 - 2023 Karellen