Karellen
Heimasíða Lubba

Lubbi er íslenskur fjárhundur. Hann er duglegur að gelta og þá heyrist ,,voff - voff." En Lubba langar mikið til að læra að tala. Þá þarf hann að læra öll íslensku málhljóðin. Hann veit að þegar hann hefur lært þau öll losnar um málbeinið og hann getur leyst frá skjóðunni. Hann hefur örugglega frá mörgu að segja.

En hvernig getum við hjálpað Lubba að læra íslensku málhljóðin? Best finnst honum að naga bein og þess vegna líta málhljóðin út eins og bein. En hann þarf aðstoð við að finna málbeinin á myndunum og æfa þau. Vilt þú hjálpa Lubba að finna málbein?

lubbi

Leitin að málbeinum

Lubbi hefur átt mjög annríkt undanfarin ár við að ferðast vítt og breitt um Ísland í leit að málbeinum. Honum hefur gengið vel að finna beinin með aðstoð allra barnanna sem lesið hafa Lubbabókina og hjálpað honum að finna málbeinin á myndunum. Einnig hafa margar mömmur og pabbar, ömmur og afar aðstoðað við leitina. Lubbi þekkir líka alla bókstafina, bæði stóru og litlu, og veit fyrir hvaða hljóð þeir standa. Hvernig gengur þér að æfa málhljóðin og þekkja bókstafina?

Lubbi á sér draum

Lubbi vill ólmur læra meira, helst að lesa og skrifa. Þá getur hann lesið Lubbabókina sjálfur og skrifað bréf til vina sinna. Ef Lubbi verður duglegur að æfa sig áfram getur hann kannski lært að lesa og skrifa nafnið sitt og mörg önnur orð sem hann getur raðað í setningar.


lubbisagar

Lubbi óskar eftir þinni aðstoð

Til að ná því marki þarf hann að leysa ýmsar skemmtilegar þrautir í Hljóðasmiðju Lubba, t.d. að mynda málhljóðin alveg rétt og tengja þau saman, klappa atkvæði, ríma, leita uppi bókstafi, raða málbeinum saman í orð, lesa orðin og svara skemmtilegum spurningum. Hann þarf örugglega á aðstoð að halda. Vilt þú hjálpa Lubba að leysa þrautirnar?


Málfyrirmyndir Lubba

lamd

Lubbi veit að góðar málfyrirmyndir skipta höfuðmáli, m.a. er varðar ríkan orðaforða og skapandi notkun málsins.

Hann veit líka að æfingin skapar meistarann og stefnir ótrauður að því að komast í hóp best mæltu Íslendinganna. Hverjir skyldu þeir vera?

© 2016 - 2024 Karellen