Karellen

Fáliðunaráætlun

Tekin fyrir hjá Skólanefnd og samþykkt í apríl 2024


Leikskólinn hefur viðbragðsáætlun / fáliðunaráætlun sem gripið verður til þegar mannekla verður of mikil til að halda úti fullri starfsemi og tryggja öryggi og velferð allra. Fáliðun í leikskóla telst vera þegar of fáir starfsmenn eru við vinnu miðað við fjölda barna hverju sinni.

Markmið með viðmiðunum er að:

 • Tryggja öryggi barna

 • Leikskólinn geti sinnt kennsluhlutverki sínu samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla 2011

 • Tryggja starfsumhverfi starfsmanna og fyrirbyggja ofálag.

Ástæður fáliðunar geta ferið t.d. vegna:

 • Veikinda starfsmanna.

 • Veikinda fjölskyldumeðlima.

 • Vegna lokunar leik- og grunnskóla t.d vegna faraldurs eða veðurs.

 • Vegna þess að ekki næst að ráða í allar stöður

Aðgerðir til að mæta fáliðun

Telji stjórnendur öryggi barna ekki tryggt og ábyrgð starfsmanna of mikil þarf að grípa til þess að skerða dvalartíma og senda ákveðinn fjölda barna heim úr skólanum.

Áður en gripið er til skerðingar á dvalartíma skoða skólastjórnendur samsetningu hópsins og fara yfir hvernig mögulega mætti hagræða skipulagðri starfsemi.

 • Starfsfólk færist á milli deilda eftir þörfum.

 • Afleysing er kölluð inn ef möguleiki er á.

 • Starfsmenn í hlutastarfi lengja daglegan vinnutíma sinn sé þess kostur og fá greitt í yfirvinnu/frítöku

 • Biðlað til starfsmanna sem eiga styttingu vinnuviku að fresta henni

 • Kennarar fresta undirbúningstíma.

 • Inntöku nýrra barna frestað

 • Matreiðsla einfölduð ef eldhússtarfsmann vantar til starfa.

Allir starfsmenn leikskólans vinna saman og aðstoða við það sem þarf og allir ganga í þau störf sem mikilvægast er að manna.

Framkvæmd skerðingar dvalartíma:

Komi upp sú staða að skerða þurfi dvalartíma skal ákvörðun um það tekin í samráði við leikskólastjóra. Það er gert samkvæmt sérstöku kerfi og miðast fjöldi skertra tíma/heimsendra barna við fyrrgreind barngildi/viðmið.

Skólastjórnendur leggja til með hvaða hætti skerðingin verður og litið er til eftirfarandi þátta:

 • Skerðing getur verið fólgin í því að börn eru heima hluta úr degi eða allan daginn.

 • Leitast skal við að tilkynna foreldrum um skerðingu með eins löngum fyrirvara og kostur er.

 • Tryggt sé að öll börn verði fyrir skerðingu einu sinni áður en skerðing kemur til framkvæmda öðru sinni.

 • Systkini eru heima á sama tíma.

 • Til að koma í veg fyrir frekari skerðingu skulu börn starfsmanna ekki send heim.

 • Þurfi að skerða vistunartíma/daga barna eru leikskóla- og mötuneytisgjöld felld niður þann tíma sem um ræðir.

Börn eru send heim eftir stafrófsröð og eru efstu börn listans af þeirri deild, sem metið hefur verið að þurfi að grípa til áætlunar vegna, tekin fyrst og svo koll af kolli eftir því hve mörg börn þarf að senda heim hverju sinni. Næsta skipti er haldið áfram eftir listanum þar sem frá var horfið. Reynt er að haga málum þannig að systkini fari heim sama daginn.

Hringt er í þá foreldra sem þurfa að sækja börn sín. Ef ekki næst í foreldra þá verða send skilaboð í gegnum Karellen kerfið. Skólastjóri og/eða staðgenglar sjá um að hafa samband.

Skólastjóri og/eða staðgenglar tilkynna fræðslusviði um aðgerðir samkvæmt viðmiðum þessum.

Tekið er fram að þurfi að grípa til ofangreindra aðgerða er ávallt um neyðarráðstöfun að ræða.

© 2016 - 2024 Karellen